Skot er ungt og kraftmikið framleiðslufyrirtæki með starfsmenn sem eru ýmist hoknir af reynslu eða brakandi af ferskleika, fagfólk í gerð auglýsinga og sjónvarpsefnis.

Við hjá Skoti erum öll sammála um að sagan verði að vera góð, hvort sem hún er stutt eða löng. Það er svo okkar að sjá um að fara með hana þannig að hún nái jafnt auga sem eyra áhorfandans, hreyfi við honum, græti hann og gleðji.

img_2833

Andri Ómarsson

Andri Ómarsson

er maður margra bolta í einu. Hann pródúserar auglýsingar, sjónvarpsþætti og uppákomur af ýmsu tagi og í reynslubanka hans er höfuðstóllinn djúpur og djúsí. Andri er með vandræðalega mikið blæti fyrir verkefnastjórnunarhugbúnaði. Við hin erum mjög ánægð með það og njótum góðs af öllu skipulagða skipulaginu. Hann er að sjálfsögðu með allt það nýjasta í tæknimálum á hreinu og þegar hann á lausa stund, sem gerist af og til, dvelur hann úti í náttúrinni og býr til börn.

daniel

Daníel Bjarnason

Daníel Bjarnason

er leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður. Hann er haldinn sjúklega miklum áhuga á heimildamyndum, auglýsingum, kvikmyndum, stuttmyndum og öllum myndum (nema dónamyndum. Hann hefur engan áhuga á þeim). Hann er ljúfi maðurinn í húsinu og aldrei með nein læti. Nema við klippitölvuna. Þá brýst út brjálæðið í honum. Sem er gott eins og heimildaþáttaröðin Burðardýr ber glöggt vitni um, en það er yngsta afkvæmi Daníels.

gunni

Gunnar Páll Ólafsson

Gunnar Páll Ólafsson

er sem sagt Gunnar í hinu afkastamikla og margverðlaunaða leikstjórateymi Samuel&Gunnar og einn eigenda Skots. Sammi segir að hann sé að öllum líkindum ekki stundvísasti maðurinn í bransanum en á móti er enginn í heiminum með næmara auga og eyra fyrir tímasetningum. Gunni er rólegheitamaður og drengur góður, drekkur gjarnan þungan bjór og hefur m.a.s. gengið í bjórskóla. Þeir félagar hafa unnið saman í átján ár og eru alls ekki á þeim buxunum að fara að hætta því núna. Sem betur fer.

gunni

Gunnar Páll Ólafsson

Hannes Þór Arason

er leikstjóri, framleiðandi og mentor Skots í umhverfisvænni hegðun. Hann bjó einu sinni í Róm en líka í Toronto þar sem hann lauk námi í Film and Media Production árið 2014. Hannesi tekst einhvern veginn alltaf að láta flóknustu hluti ganga upp og margvísleg verkefni smella saman, nokkuð sem kemur sér afar vel á hverjum einasta degi hér í Skoti. Borið hefur verið mikið lof á bæði stuttmyndirnar hans og tónlistarmyndböndin og verkefnin sem hann hefur unnið að síðan hann byrjaði hjá Skoti hafa öll hitt í mark. Mesta afrekið hans kann þó að vera að kenna gömlum hundum Skots að sitja og flokka ruslið sitt.

Hlynur

Hlynur Sigurðsson

Hlynur Sigurðsson

er elsti og gráhærðasti maðurinn í húsinu. Hann vill að hér standi líka að hann sé sá virðulegasti. Hann er einn eigenda Skots og framkvæmdastjórinn á bænum. Hlynur er búinn að vera í sjónvarpi frá aldamótum og ekkert er honum óviðkomandi. Golf, fréttir, golf, barnaefni, golf, fasteignasjónvarp, golf, spjallþættir og golf. Hann var auk þess frumkvöðull í netsjónvarpi í árdaga þess. Svo er hann með MBA gráðu frá Copenhagen Business School. Enginn útlendingur getur samt borið fram nafnið hans.

Inga Lind

Inga Lind Karlsdóttir

Inga Lind Karlsdóttir

er einn af eigendum Skots og hefur starfað við fjölmiðla í rúm tuttugu ár, lengst af í sjónvarpi sem fréttamaður, þáttastjórnandi og kynnir. Hún hefur verið með puttana í heimildamyndavinnu og raunveruleikasjónvarpi og öllu þar á milli því henni finnst þetta allt saman jafn ofsalega gaman. Mottóið hennar er einmitt að þetta (lesist: allt) verði að vera gaman. Inga Lind lauk AMP í Media og Entertainment frá IESE Business School í fyrra en hún nam líka íslensku við Háskóla Íslands og gerir aldrei stafsetningavilur.

Inga Lind

Inga Lind Karlsdóttir

Kristín Andrea Þórðardóttir

er framleiðandi og hefur verið á bólakafi kvikmyndabransanum í rúman áratug, vinnandi við allnokkrar dúndurgóðar kvikmyndir. Okkar hlutlausa mat á þessum nýjasta starfsmanni Skots er að hún geti allt. Hún bjó í Danmörku í upphafi aldarinnar, drakk þar bjór, lærði alþjóðaviðskipti og tók svo master í markaðsfræðum, samskiptum og stjórnun. Akkúrat núna er hún sokkin ofan í þróun á heimildaverkefnum en þegar hún kemur upp til að anda, fer hún helst alla leið upp á eitthvað fjall. Kristín Andrea er annar höfuðpaur Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildamynda, og er með eina slíka mynd í smíðum sjálf.

samuel2

Samúel Bjarki Pétursson

Samúel Bjarki Pétursson

er annar helmingurinn af auglýsingaleikstjórateyminu Samuel&Gunnar og einn eigenda Skots. Sammi er í banastuði daginn langan og eiginlega alltaf brosandi, einbeittur maður mjög og gengur glaður í ólíklegustu verk, jafn hérlendis sem erlendis. Einn daginn innréttar hann skrifstofuhúsnæði Skots, þann næsta hannar hann vefsíðuna, flokkar allt efni sem hann finnur, merkir, raðar, lagar og svo passar hann alltaf að allt sé hreint og fínt hjá okkur. Hann leggur áherslu á að borða hollan og næringarríkan mat en vill alls ekki drekka þungan bjór. Við dæmum hann ekki fyrir það.